Heimsmeistaramótið í F3F – Dagur 3

Jæja, þá færist fjör í leikinn, það komu inn 3 kærur eftir gærdaginn. Tvær frá Bandaríkjamönnum sem báðum var hafnað sökum þess að kæra þarf innan 60 mínútna og ein frá Póllandi sem var staðfest. Allar snéru þær að því að ekki hafi verið hægt að fylgjast með aðstæðum á nógu nákvæman hátt sökum þess að ekki var uppsettur vindmælir að mæla allan tímann. Þessi sem Ástralinn flaug niður á sunnudaginn munið þið.

Því var ákveðið að fljúga þurfi hóp tvö, sem Pólverjinn sem kæran snerist um var í, í sjöttu umferð aftur. Þetta eru góðar fréttir fyrir Sverri þar sem hann fær þá annan séns til þreyta flugið sitt í sjöttu umferð.

Dagurinn byrjaði MJÖÖÖÖG rólega og um 8 leytið tilkynnti mótsstjórn að ekki yrði flogið að sinni og nýjar upplýsingar kæmu um 11 leytið. Við fórum því að Goorer Berg og prófuðum nýju vélina hans Erlings þar og er óhætt að segja að hún lofi góðu. Höfum ekki enn komist með hana í hang en vonandi snemma í fyrramálið ef vindurinn byrjar snemma að blása.

Eftir það keyrðum við að Vitt og skoðuðum aðstæður. Ágætis brekka en nokkur tré sem þarf að vara sig á. Um 11 leytið kom svo tilkynning frá mótsstjórn að flogið yrði í Vitt eftir 12:30 og óvæntur atburður verði kl. 12. Við keyrðum því út að Vitt og settum upp búðir á svæði sem var sannkölluð litla Skandinavía en við, Norðmenn og Danir vorum þarna í góðum gír.

Um 12:30 voru flugmenn svo kallaðir út á akur og kom þá í ljós að óvænti atburðurinn var grjóthreinsun á vara lendingarsvæðinu. Nú geta menn því bætt nýjum hlut á ferilskrána, farandsverkamenn í Þýskalandi, Ekkert bólaði hins vegar á Kára kallinum svo alls konar létt flugmódel voru tekin fram og flogið á milli þess sem menn spjölluðu um allt milli himins og jarðar.

Um 16:40 fór vind þó að hreyfa og fyrstu menn í hóp 2 í sjöttu umferð voru ræstir út. Adam var hins vegar ekki lengi í paradís og um 17:35 datt vindurinn niður fyrir lögleg mörk og einungis 22 flugmenn búnir að fljúga! Það náðist þó rétt svo að klára hóp 2 í dag en hópur 3 verður floginn á morgun.

Samkvæmt vinum okkar hjá norsku veðurstofunni ætti ekki að skorta vind á morgun svo vonandi náum við fjórum heilum umferðum þá. Föstudagur og fyrri hluti laugardags ættu líka að vera þokkalegir. Það lítur út fyrir að við verðum í Vitt á morgun og förum svo yfir á Goorer Berg á föstudag og laugardag.

Sameiginlegur kvöldverður var svo haldin í Putgarten og skemmtu menn sér þar yfir góðum mat áður en haldið var heim á leið.