Það var farið á fætur rétt fyrir sex í morgun enda stefnan sett á að vera mættir út í brekku rétt fyrir klukkan átta. Skemmst er frá því að segja að það gekk eins og í sögu og fljótlega voru vélarnar komnar saman og búið að stilla upp pittinum. Það var svo klukkan níu sem keppnisfundur var haldin með þátttakendum og starfsmönnum og fyrsta flug fór í loftið tæpum tíu mínútum síðar.
Vindurinn var af skornum skammti, við höfum sennilega farið langt með að klára hann síðustu daga, og var að rokka þetta frá 3-4 m/s. Fyrsta og önnur umferð voru flognar nokkuð skammlaust, örfá endurflug, oftast út af tæknilegum mistökum en líka þegar vindur datt niður fyrir 3 m/s.
Þegar um þriðjungur af þriðju umferð var búinn var Sverrir í öðru sæti en því miður þá þurfti að fella umferðina niður sökum vindleysis og eftir um klukkutíma var mótinu frestað fram á morgundaginn. Eins og staðan er núna þá er Sverrir í 18. sæti, Guðjón í 20. sæti og Erlingur í 25. sæti.
Hvernig það breytist á morgun verður svo að koma í ljós en miðað við veðurspá verðum keppt á frekar lágri brekku sem er ekki alveg bein þannig að búast má við erfiðri keppni.
















