Dagurinn var blautur og grámyglulegur þegar við vöknuðum í morgun en keppnisfundur var boðaður á hafnarsvæðinu í Obrestad klukkan 9, þangað var rétt rúmlega 25 mínútna akstur. Það létt örlítið yfir þegar sunnar dróg og benti allt til þess að spár YR.no myndu ganga eftir og létta til eftir því sem leið á daginn. Keppnin hófst svo upp úr kl. 10 með þriðju umferðinni og voru 12-15 m/s í þriðju og fjórðu umferð.
Brekkan var bæði lág og óregluleg svo uppstreymið var ansi misjafnt og tímarnir eftir því en heilt yfir voru menn bara nokkuð sáttir með sína tíma í nýrri brekku og svona miklu vindi. Sverrir var svo 14 í fjórðu umferð og var bara ansi sáttur með það miðað við aðstæður. Í fimmtu umferð byrjaði vindurinn að snúa sér frá brekkunni jafnframt því sem hann fór minnkandi. Tímar í seinni hlutanum fóru því versnandi eftir því sem á leið og í lokin var orðið mjög tæpt að fljúga í brekkunni þannig að um tvöleytið var tilkynnt að við færum yfir í Hodne.
Í Hodne tók við vinna að setja upp keppnisbrautina og vélarnar en ræst var út í sjöttu umferð rétt fyrir 15:30. Vindurinn var 30 gráður á brekkuna og í kringum 4 m/s til að byrja með en eftir því sem leið á fór hann að blása beint á brekkuna en fór jafnframt óðum þverrandi. Þegar um 7 flugmenn voru eftir þá fór vindurinn að detta niður fyrir 3 m/s eins og í gær og fór það svo að hann náði sér aldrei á strik eftir það.
Því stefnir allt í að sjöttu umferð verði skipt í tvær grúppur og við reynum að klára seinni grúppuna á morgun. Þetta var óneitanlega smá svekkelsi þar sem Respect vélarnar hjá Sverri og Guðjóni kunna mjög vel við sig í 3-4 m/s og vorum þeir í góðum málum þegar leikar voru blásnir af. Guðjón flaug þó í fyrri grúppunni ásamt Erlingi þannig að þeirra tíma eru orðnir gildir ef næst að klára umferðina á morgun en svo verður þá bara að koma í ljós í hvernig aðstæðum seinni grúppan lendir.
Vinir okkar hjá YR.no spá því að þurrt verði fyrrihluta morgundagsins og SA átt og þá eru þokkalegar líkur á því að náist náum að klára sjöttu umferðina og kannski eitthvað örlítið meira. Nú er bara að krossa putta og sjá hvað morgundagurinn ber í skauti sér!