Norway Open þriðji dagur

Það rigndi eins og hellt væri úr fötu í nótt en þegar við fórum á fætur um hálf sjö þá voru einstaka dropar á stangli og leit bara ansi hreint bærilega út með að nóg yrði flogið í dag. Veðurspáin hafði breyst örlítið og átti að verða þurrt fram að hádegi en svo átti að fara að rigna eftir það.

Við vorum mættir á Obrestad suður svæðið rétt fyrir hálf níu og eftir að hafa burðast með allt dótið út í brekku voru við klárir í flug rétt fyrir níu. Aðstæður litu bara ansi hreint vel út vindur upp á 12 m/s og þurrt. Keppnisfundurinn var haldinn rúmlega níu og var fátt sem kom á óvart, við byrjuðum á að klára annan hóp sjöttu umferðar. Það þýddi að Sverrir var þriðji maður út en Elli og Guðjón hvíldu fram að sjöundu umferð.

Fyrsti keppandinn fór og flaug en á meðan annar keppandinn var á lofti opnuðust flóðgáttirnar svo hann var kominn með endurflug. Fór það svo að eftir talsverða bið var hópurinn endurræstur og gekk svona nokkuð þokkalega að klára umferðina. Fjörið hófst hins vegar fyrir alvöru í sjöundu umferð þegar reglulega fór að ganga á með skúrum, svo um 11 var tilkynnt að ákvörðun um framhaldið yrði tekin klukkan 13 nema veðrið batnaði fyrir þann tíma.

Við breiddum því yfir dótið og röltum niður að bílunum ásamt öðrum keppendum þar sem við tók smá tilraun til að þurrka mestu bleytuna af mannskapnum ásamt spjalli um allt mögulegt og ómögulegt, t.d. Iceland Open 2020 en þó nokkrir höfðu heyrt orðróm um þær fyrirætlanir og lýstu yfir áhuga á að mæta.

Um 12:50 var enn bleyta í lofti og veðurspáin hafði versnað talsvert ásamt því sem veðurradarinn sýndi mikla bakka rétt fyrir utan sem voru á leið inn var ákveðið að láta gott heita eftir 6 umferðir og verðlaunaafhending yrði kl. 14:30 hjá Espen. Við röltum því aftur upp í brekku að taka saman dótið áður en brunað var heim til að koma dótinu í þurrk áður en við mættum á verðlaunaafhendinguna.

Fóru leikar svo að Siegfried Schedel varð í fyrsta sæti, Søren Krogh í öðru sæti og Markus Meissner varð í því þriðja. Af ungu kynslóðinni fékk Mikkel Krogh sérstaka viðurkenningu. Sverrir endaði í 20. sæti, Guðjón í 24. sæti og Erlingur í 25. sæti. Góður túr að baki og búið að bæta miklu í reynslubankann!