Spáin fyrir helgina var ekki góð svo það var ákveðið að færa mótahaldið yfir á seinni partinn í dag í staðinn þar sem veðurspáin var örlítið skárri og beint upp á Bleikisteinshálsinn um miðjan daginn. Sjö keppendur voru tilbúnir á hliðarlínunni en þegar til kom þá mættu fimm í brekkuna.
En rásröðin var sem hér segir:
- Böðvar
- Erlingur
- Rafn
- Guðjón
- Sverrir
Mótið gekk almennt nokkuð vel fyrir sig, þrjú endurflug vegna bjöllugangs og eitt þegar vindur fór niður fyrir leyfileg lágmörk. Rafn hætti eftir óhapp í fyrstu umferð og Böðvar þurfti að sitja hjá í fjórðu umferð eftir smá lendingaróhapp þegar hann þurfti að koma frekar snöggt inn til lendingar þar sem vindur var á hraðri niðurleið. Hann var svo klár aftur fyrir fimmtu umferðina sem aldrei var flogin.
Úrslit urðu sem hér segir, áhugasamir geta skoðað nánari greiningu á vef F3XVault:

Aðstæður voru fjölbreyttar í dag og bólur höfðu sitt að segja annað slagið um flughraðann sem í boði var, heilt yfir voru menn þó að fljúga við svipaðar aðstæður eins og sést á stigadreifingunni en fjórða sætið var með rúmlega 86% af stigum fyrsta sætis. Þrír flugmenn skiptu svo með sér fyrsta sætinu í þessum fjórum umferðum
Með því að nota keppnistölvuna og vindmæli fæst nákvæm greining á öllum flugunum. Hvet menn til að skoða þetta, fara t.d. inn á hverja umferð fyrir sig (smella á Round X í hausnum) og skoða svo auka flipana sem eru með alls konar góðgæti, einnig smella á nafn flugmannanna.

Böðvar átti hraðasta flugið 68,48 sek í annari umferð, Sverrir vann tvær umferðir og Böðvar og Erlingur eina umferð hvor. Árni og Frímann stóðu svo vaktina í hliðunum með stakri prýði og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir! Þetta hefði ekki gengið svona hratt og vel fyrir sig án þeirrar hjálpar!



















