Á morgun byrjar fjörið

Við leggjum af stað til Danmerkur eldsnemma í fyrramálið á heimsmeistaramótið í F3F, hraðflugi á módelsvifflugum. Fyrst höldum við til Kaupmannahafnar með Icelandair en þaðan liggur leiðin til Hanstholm þar sem við munum dvelja í góðu yfirlæti í Vigsø Feriecenter.

Fyrstu liðin mættu á svæðið á sunnudaginn var og hafa verið að fljúga síðustu daga. Forkeppni verður haldin á laugardag og fyrri hluta sunnudags fyrir keppendur og aðstoðarmenn.

Seinni part sunnudags verður mótið sett og flogið verður frá mánudegi og fram á miðjan laugardag eftir því sem veður leyfir en flogið er í 3-25 m/s og vindur þarf að standa 90-45° á brekkuna sem flogið er í. Langtíma veðurspáin er bara þokkalega góð, 14°C hiti, léttskýjað og 6-11 m/s með litlum líkum á vætu.

Þetta er í þriðja sinn sem heimsmeistaramót er haldið í greininni undir formerkjum FAI, sem Flugmálafélag Íslands er aðili að og Flugmódelfélagið Þytur sem aðildarfélag þess. Fyrsta mótið var haldið í Cap Arkona í Þýskalandi 2012 og annað mótið í Donovaly í Slóvakíu 2014.

Fyrir þann tíma var um óopinber heimsmeistaramót að ræða sem hétu Viking Race, en þessi tegund módelsvifflugs rekur ættir sínar til Norðurlandanna og breiddist þaðan út.

Fyrsta mótið var haldið 1989 í Hanstholm, en þar tók Rafn Thorarensen þátt fyrstur Íslendinga, þannig að það má segja að heimsmeistaramótið sé loksins komið heim. Við héldum Viking Race mót hér heima árið 1996, sjá vefsíðu mótsins og svo myndir, og tókum nokkuð reglulega þátt í þeim á þessum árum.

Áhugasamir geta fylgst með hin ýmsum síðum á Snjáldurskinnu, bæði frá skipuleggjendum og öðrum þátttökuþjóðum en tenglar á þær er að finna hér hægra megin í valmyndinni.

Fyrir þá sem þekkja ekki til F3F flugs þá er YouTube vídeó hér neðar í póstinum þar sem ein umferð er flogin í móti sem haldið var í Danmörku haustið 2015.