Fyrsti dagur

Fyrstu menn lögðu af stað suður á flugvöllinn rúmlega fjögur í nótt en meginþorri leiðangursmanna var kominn um fimmleytið. Vel gekk að innrita farangurinn og eftir að hafa komið við hjá öryggisstjóranum var haldið sem leið lá til Danmerkur.

Eftir stutt stopp á Kastrup var haldið af stað til Odden þaðan sem ferjan var tekin til Árósa. Þar var tekið snöggt stopp í Silvan til að kaupa stóla, plastdúka og aðra fyrirferðarmikla hluti sem ákveðið var að taka ekki með út. Þaðan tók við rúmlega tveggja tíma akstur til Vigsø og vorum við komnir þangað upp úr átta sem passaði vel þar sem við áttum að mæta í skráningu kl. 20:20 og gátum því tékkað okkur inn áður í sumarhúsið okkar.

Þegar komið var að okkur í skráningunni var farið yfir vélarnar og bætt á þær fleiri miðum ásamt því að við skiluðum inn tækniupplýsingablöðum fyrir flugmódelin og fengum skráningarpakka með keppnisnúmerum bæði fyrir forkeppnina og aðalkeppnina.

Á meðan að þessu stóð höfðu aðstoðarmennirnir brunað inn í Hansthólm og verslað helstu nauðsynjar í ísskápinn og hittist svo vel á að þeir komu í hús um það leyti sem við löbbuðum út úr miðstöðinni, nýskráðir og fínir.

Þá var haldið heim í kotið að gera flugmódelin klár fyrir morgundaginn og ræða næstu skref. Það voru svo þreyttir en ánægðir flugmódelmenn sem lögðust á koddana rétt fyrir kl. 23.