Dagur tvö

Dagurinn var tekinn snemma, ræs klukkan sjö, og síðan var snæddur staðgóður morgunmatur að hætti Eysteins áður en haldið var af stað. Vindurinn stóð upp á Brunbjerg svo þangað var haldið um hálf níu.

Um fimm mínútna labb er frá bílastæðinu að brekkubrún en hún er 25 metra há og svo er fínasta lendingaraðstaða bak við hana. Um 65 flugmenn voru þarna mættir, keppendur, aðstoðarmenn þeirra og starfsmenn mótstjórnar en forkeppnin er opin fyrir alla sem koma að mótinu.

Keppnin var sett um 9:30 en mikið var um endurflug í dag þar sem Kári virðist hafa skellt sér í frí eftir æsing síðustu daga. Það fór því svo að keppni var hætt um 15:30 sökum vindleysis, innan við 3m/s í meira en 20 sekúndur,  en þó höfðu 36 flugmenn náð að fljúga í dag.

Okkar menn voru númer 54 og 63 svo ekki náðu þeir út í dag en forkeppninni verður haldið áfram fyrri partinn á morgun. Setningarathöfn heimsmeistaramótsins verður svo seinni partinn á morgun og keppnisflug hefst á mánudagsmorgun.

Eftir að hafa pakkað saman þá var rölt í Kringlu þeirra Hanstholm manna og verslað í matinn fyrir kvöldið og næstu daga. Svo var kjöti skellt á grillið sem menn gerðu góð skil eftir langan en ekki svo strangan dag.

Sjá fleiri myndir hér.