Það var myrkur þegar fyrstu menn fóru á fætur og talsvert meiri vindur heldur en spáð var. Eftir kjarngóðan morgunmat þá var haldið af stað í brekkuna ,,Hamborg’’ en hún er sú besta sem Danaveldi hefur upp á að bjóða, 35 metra há, aflíðandi og snýr beint út á sjó.
Eftir að hafa slegið upp tjaldbúðum þá var farið fram á brekkubrún að taka stöðuna og mældust um 16 m/s en síðar um daginn fór vindurinn alveg upp í 20 m/s, ca. 30° á brekkuna. Eða eins og einn góður flugmaður frá Frakklandi sagði, ,,Lendingarnar voru algjör martröð, eins og að vera í þvottavél.’’ Fjórar vélar skemmdust frekar illa í lendingum, nokkrum hlekktist á en verða vonandi orðnar flugklárar fyrir morgundaginn.
59 flugmenn eru skráðir til leiks og tók 120-150 mínútur að klára eina umferð í dag. Þannig náðist að fljúga fjórar umferðir sem er lágmarkið sem þarf til að keppnin sé gild. 2014 var veðrið afleitt og rétt náðist með herkjum að ljúka fjórum umferðum. Engin hætta er á að svo fari í ár og ættu að nást 20 umferðir og jafnvel nokkrar til viðbótar.
Okkar menn komust vel frá deginum, náðu að fljúga í öllum fjórum umferðunum sem flognir voru í dag og eru vélarnar klárar fyrir komandi átök. Til stendur að flogið verði í Vigsø brekkunni á morgun miðað við hvernig veðurspáin er í augnablikinu.
Sjötti og síðasti liðsmaðurinn mætti í dag og skutust aðstoðarmennirnir eftir honum til Álaborgar og er þá liðið fullskipað fyrir komandi átök. Ekki veitir af þar sem mannskapurinn er farinn í bólið fyrir kl. 22 öll kvöld.