Dagur fimm – Annar keppnisdagur

Það stóð heima sem spáð hafði verið, dagurinn skyldi floginn í Vigsø brekkunni og talsvert hafði dregið úr vindinum frá því í gær. Reyndar svo mikið að fyrstu menn voru ekki ræstir út fyrr en um 10 leytið Þegar aðeins var búið að bæta í vindinn.

Vigsø brekkan stendur mjög vel fyrir okkur en hún er í um 5 mínútna fjarlægð frá bústaðnum okkar svo græjurnar voru settar undir hendurnar og arkað af stað. Fyrsta umferðin var frekar hæg en svo fór hraðinn að aukast eftir því sem leið á. Dagurinn var þó frekar misjafn þar sem uppstreymisbólur komu reglulega í gegn og menn gátu lent í niðurstreymi þó nógur vindur væri á brekkubrún en aðrir fengu aukið uppstreymi og þ.a.l. meiri hraða.

Svo komu óvænt tíðindi eftir sjöttu umferðina þegar tilkynnt var að dómararnir hefðu ákveðið að láta endurfljúga aðra umferðina. Hver ástæðan var fáum við að vita á morgun þegar úrskurðurinn verður birtur. Okkar menn högnuðust aðeins á þessu, Guðjón fékk 40 stig umfram sitt fyrra flug og Sverrir 36 stig en einna mest gagnaðist þetta þó þeim fjórum sem fengu núll fyrir umferðina. Því kláraðist bara sjöunda umferðin í dag þótt fjórar umferðir hefðu verið flognar.

Best tíminn í dag var 42,24 sekúndur sem Radovan Plch frá Tékklandi átti.
Vindurinn snýr sér örlítið á morgun og bætir í og mun brekkan Kridtvejen verða flogin á morgun en það er 25 metra há brekka um 2,5 km austar en Hamborg brekkan.

Myndir frá deginum.