Dagur sex – þriðji keppnisdagur

Það var vel hvasst í morgun þegar menn fóru á fætur og engin breyting á brekku, í Kridtvejen skyldi haldið. Brekkan sú er innan skilgreinds þjóðgarðssvæðis og umferð bara heimil fótgangandi og á hjólum. Skipuleggjendur höfðu fengið leyfi frá yfirvöldum til að keyra eftir stíg sem liggur fyrir neðan brekkuna svo það sparaði talsvert labb en olli líka óþægindum þar sem nokkrir heimamenn fundu sig knúna til að tjá sig um það við alla þá sem þeir hittu.

Dagurinn byrjaði snemma þar sem nógur var vindurinn og voru fyrstu menn komnir í loftið 8:45 og náðist að fljúga fimm umferðir í dag. Meðal vindurinn var í kringum 13 m/s og fór upp í 16-17 m/s í hviðunum. Síðustu 10 flugmennirnir í fimmtu umferð fengu talsvert meiri vind en þeir sem flugu fyrr í umferðinni og var besti tími dagsins floginn þá sem var 35,28 sekúndur og jafnframt besti tími mótsins hingað til.

Kridtvejen er besta brekkan sem við höfum flogið hingað til, alla vega með tilliti til lendingarstaðar, aðflugið er mjúkt og fínt og lítið um sviftingar. Ef veðurspáin heldur þá er möguleiki að við verðum þarna alveg fram á laugardag þegar mótið klárast. Okkar menn voru sáttir við daginn og voru að fljúga innan sama þriggja sekúndna gluggans í dag svo þeir voru mjög stöðugir.

Línur eru aðeins farnar að skýrast í efstu sætum og í augnablikinu eru Þjóðverjar í tveim efstu, svo Breti, Frakki og Norðmaður. Í liðakeppninni eru efstu þrjú löndin Þýskaland, Frakkland og Danmörk. Það munar um 600 stigum á fyrsta og fimmta sætinu í einstaklingskeppninni svo það getur allt gerst á næstu dögum!

Myndir frá deginum.