Dagur sjö – fjórði keppnisdagur

Það var enn hvassara í morgun þegar menn fóru á fætur og aftur lá leiðin út í Kridtvejen. Dagurinn byrjaði með liðsstjórafundi þar sem keppnisstjórinn tilkynnti að þeir ætluðu að láta 20 umferðir duga, fjórar í dag, fjórar á föstudag og svo laugardagur í frjálst flug fyrir keppendur og aðstoðarmenn og gefa þannig aðstoðarmönnunum sem eru búnir að vera hérna í rúma viku smá frí.

Einhverjir úr austanblokkinni voru ekki sammála svo efnt var til atkvæðagreiðslu sem fór 9-6 með því að gera þetta svona. Það var svo kært og og niðurstaðan var sú að flogið verður fram á laugardag en keppnisstjórinn mun í staðinn gera hádegishlé og leyfa aðstoðarmönnunum að matast í ró og næði.

Þegar flugið hófst var þá þegar farið að blása 18 m/s + og Sverrir fann vel fyrir því hvað hann var á léttri vél í fyrstu umferðinni og hún hentist öll til og frá í brautinni þó hún væri með fulla ballest. Guðjóni gekk aðeins betur enda getur hann sett næstum kíló umfram af ballest.

Í annarri umferð þá var vindurinn orðinn of mikill fyrir vélina hjá Sverri og náði hún ekki út í hangið og skemmdist örlítið í lendingu en Sverrir var búinn að gera við hana klukkutíma síðar. Hins vegar var þá enn búið að bæta í vindinn svo hann sat hjá í næstu umferðum. Guðjón var hins vegar nokkuð stöðugur og var innan við sekúndu frá sama tíma í öllum fjórum umferðunum.

Um hádegið fór að bæta í vindinn og var hann orðin 23 m/s með öflugri hviðum inn á milli en samt ekki nóg til að fara upp fyrir 25 m/s meðalvindhraða svo það var vel keppnisfært. Hraðasta tíma dagsins og jafnframt mótsins hingað til átti Markus Meissner frá Svisslandi en hann flaug á 32,08 sekúndum.

Það voru svo þreyttir en sáttir flugmenn sem héldu heim í sumarbústaðinn í kvöld. Á morgun stendur til að fljúga aftur í Kridtvejen brekkunni og ekki lítur út fyrir að það sé að draga úr vindinum, það hvín og syngur hér í kofanum þegar þessi pistill er ritaður.

Myndir frá deginum.