Það stóð heima þegar menn vöknuðu í morgun, enn var vindur mikill en þó heldur minni en í gær. En og aftur var það Kridtvejen brekkan sem vindurinn stóð á þó hann væri nokkrum gráðum til hliðar við það sem hann var í gær. Það bætti þó heldur í þegar leið á morguninn og var vindurinn síst minni en í gær.
Seinni helmingurinn af sautjándu umferðinni var kláraður í morgun og svo fjórar í viðbót og eru þá 21 umferð að baki (22 með þeirri sem var felld niður). Á morgun ætti svo að nást að fljúga tvær umferðir til viðbótar en ekki verður ræst út eftir kl. 13. Matur og verðlaunaafhending er svo á dagskrá kl. 19 annað kvöld.
Hraðasta tíma dagsins, 36,30 sekúndur, átti Vladimir Simo frá Slóvakíu í tuttugustu umferð. Enn er talsverð spenna í baráttunni um fyrsta sætið en einungis munar 8 stigum á fyrsta og öðrum manni en það eru Þjóðverjarnir Thorsten Folkers og Helge Borchert. Frakkinn Pierre Rondel er svo í þriðja sæti 479 stigum á eftir fyrsta sætinu. Í liðakeppninni eru Þjóðverjar efstir, svo Frakkar og Bretar í þriðja. Ólílegt er að það breytist í umferðum morgundagsins.
Þar sem þetta var síðasta kvöldmáltíð okkar félaga í bústaðnum, það er jú kvöldverður og verðlaunaafhending annað kvöld, þá fóru aðstoðarmennirnir snemma í búð í dag að kaupa inn mat fyrir kvöldið og undirbúa. Þeim brást ekki bogalistin og svo bætti Eysteinn um betur þegar hann var sendur upp í þjónustumiðstöð að ná í íspinna og kom til baka með ístertu.
Á morgun stefnir svo allt í álíka vind og í dag en í aðra stefnu og er Vigsø brekkan á dagskrá þegar þessi orð er rituð. En það er bara hið besta mál og ekkert yfir því að kvarta, flott að geta rölt út í brekku beint úr bústaðnum. Smá bleyta er í kortunum eins og er en við höfum ekki áhyggjur af því fyrr en á það reynir