Dagur níu – sjötti keppnisdagur

Það hvein og söng í öllu þegar við vöknuðum í morgun og Vigsø brekkan var enn á dagskrá. Við fengum okkur morgunmat og röltum svo í rólegheitum út í brekku enda ekki nema fimm mínútna rölt á áfangastað.

Fyrstu menn voru ræstir út rétt rúmlega níu og svo var flogið til að verða hálf þrjú. Ekki gerðist margt fréttnæmt í dag en keppandi Hollendinga í unglingaflokki varð fyrir því óláni að missa vélina sína vegna bilunar. Í heildina voru því flognar 24 umferðir á fimm og hálfum degi, 25 ef við teljum með umferðina sem var felld niður. Það eru því 21 umferð umfram mótið 2014 og 2 umferðir umfram mótið 2012 og ekki annað hægt að segja að vel hafi til tekist.

Í fyrsta sæti Thorsten Folkers frá Þýskalandi, í öðru sæti Helge Borchert frá Þýskalandi og í þriðja sæti  Pierre Rondel frá Frakklandi. Í liðakeppninni varð Þýskaland í fyrsta sæti, Frakkland í öðru sæti og Danmörk í þriðja sæti. Við óskum Thorsten og Þýskalandi til hamingju með sigurinn.

Skipulagningin hjá Dönunum hefur verið til fyrirmyndar og allt gengið eins og í vel smurðri vél. Veðrið hefur verið til fyrirmyndar, þurrt og bjart, og vindur nálægt efri mörkum seinni hluta vikunnar. Einstaka hikst hefur verið í keppnistölvunni en það hefur alltaf verið leyst á innan við mínútu.

Verðlaunaafhending verður kl. 19 í kvöld og strax á eftir verður hátíðarkvöldverður fyrir keppendur og aðstoðarfólk. Við látum þennan pistill verða þann síðasta frá Danmörku en við leggjum af stað áleiðis til Kaupmannahafnar snemma í fyrramálið og komum heim annað kvöld.

Myndir frá deginum.