Mót haldið

Við vorum komnir í Kambana rétt fyrir kl. 14 í dag og þá var útsýnið nokkrir metrar og mikil rigning, svo það var ekkert annað að gera en að hoppa upp í einn bíl og leysa alheimsvandamálin og lífsgátunni allt í einu.

Rétt fyrir 15 hafði þetta lítið skánað en þó var farið að draga úr rigningunni og hætti hún skömmu síðar! Um hálf fjögur renndi Maggi svo í hlað eftir mikin þvæling upp og niður Kambana, innan sem utan vegar, og fær hann þolinmæðisverðlaun ársins fyrir það. Korter í fimm var svo ljóst að flugveðrið væri alveg að detta inn og við höfðum veðjað á réttan hest eftir mikla yfirlegu yfir veðurkortum síðustu daga, svo þá var ekkert að gera annað en að henda hliðunum upp.

En þar sem við vorum bara 4 á svæðinu þá náðist nú ekki að taka mikið af sjálfu fluginu annað en það sem hausinn á Magga festi á kubb. Engu að síður náðum við að manna hliðin og tímatökuna þannig að við hófum leika rétt rúmlega fimm. Rétt fyrir sex fór svo að þykkna upp og rigningin mætti aftur á svæðið svo þá var sjálfhætt en við höfðum náð að fljúga þrjár umferðir og vorum nokkuð sáttir með það.

Þá náðist líka markmiðið sem lagt var af stað með á aðalfundi Þyts að hefja æfingar í mars/apríl og halda svo keppni í maí þannig að við gætum ekki verið sáttari. Því miður lítur ekki út fyrir að mikið verði um hang næstu vikurnar eins og staðan er í dag þannig að við krossum bara putta og vonum að við komumst aftur upp í brekku fljótlega að æfa okkur fyrir komandi baráttu.

Svona skiptust stigin á milli þátttakenda:

Sæti Keppandi 1. umferð 2. umferð 3. umferð Samtals
1. Sverrir Gunnlaugsson 1000 1000 1000 3000
2. Guðjón Halldórsson 980 962 970 2912
3. Erlingur Erlingsson 835 770 652 2257

Þökkum Magga kærlega fyrir alla hjálpina í dag, við hefðum ekki getað þetta án hans! 🙂

Það vantaði svo ekki vindinn í dag, eftir hádegi fóru hviðurnar yfir 25 m/s og meðalvindur yfir 20 m/s. Það var þó orðið aðeins rólegra þegar við komumst loksins í loftið.

Nokkrar myndir frá deginum, áhugasamir geta svo séð fleiri myndir og umfjöllun flugmódelspjallinu.