Tveir mánuðir í heimsmeistaramótið

Nú eru rétt um tveir mánuðir þangað til flautað verður til leiks í heimsmeistaramótinu í F3F í Rügen og nú þegar búið er að loka fyrir skráningar í keppnina er 21 þjóð skráð til leiks. Flestar eru þjóðirnar með fullskipað lið en samtals eru 63 flugmenn, þar af 3 ungmenni, sem munu hefja keppni þann 8. október og ljúka henni 13. október en mótið verður sett 7. október. Til gamans má geta að allar Norðurlandaþjóðirnar, nema Svíar, eru skráðar til leiks í ár og munu senda fullmönnuð lið til keppni.

Á síðasta heimsmeistaramóti sem haldið var í Danmörku haustið 2016 tókst að fljúga 3-5 umferðir á dag með 59 keppendum og við eigum ekki von á neinu öðru en Þjóðverjar muni halda uppi svipuðum afköstum.

Áhugasömum er bent á að mikil metnaður er í Þjóðverjum og munu verða beinar útsendingar frá keppninni og „HM stofa“ í lok dags þar sem farið verður yfir helstu atburði dagsins, viðtöl við keppendur og starfsmenn ásamt fleiru áhugaverðu.

Eins og öllum góðum liðum sæmir munum við vera með okkar eigið merki og verður það kynnt hér síðar í mánuðinum.