Hangið á lyginni

Blásið var til sóknar í vikunni og stefnt á flug núna um helgina. Þegar laugardagsmorgun rann upp lá það ljóst fyrir að þokkalegustu aðstæður voru í Kömbunum svo þangað var haldið. Við komuna var sæmilegur vindur á svæðinu eða í kringum 5 m/s. Eftir að búið var að setja saman svifflugurnar var arkað áleiðs að Kambabrún en þá kom í ljós að heldur hafði dregið vindinn úr Kára kallinum. Engu að síður var látið vaða fram af, þó vindmælirinn sýndi 2,7 m/s meðalvind yfir 10 sek. tímabil, en þar sem um rafmagnsskrokk var að ræða þá var áhættan ekki mikil.

Kannski sem betur fer því ekki var búið að fljúga margar mínútur í loftinu þegar vindurinn datt niður í nánast ekki neitt svo þá var mótorinn settur í gang og vélinni klifrað upp í þægilega hæð áður en stefna var tekin á lendingu. Það varð því ekki mikið úr flugi í dag.

Nú er tæplega mánuður í að keppnin hefjist í Kap Arkona og er óhætt að segja að það sé komin mikill hugur í menn!