Þrír spenntir flugmódelmenn voru mættir með um 40 kg af farangri á mann í Leifsstöð rétt fyrir 5 í morgun. Eftir að hafa gengið frá öllum formsatriðum var ekkert að vanbúnaði að halda til Tegel flugvallar í ûtjaðri Berlínar en þar var búið að leigja níu manna Transporter undir hersinguna.
Eftir tíðindalítið flug til Berlínar tók við mikil bið eftir flugmódelunum sem fylgt var eftir með stífum yfirheyrslum tollvarða um innihald kassa og tilgang fararinnar. Eftir endalaust labb um flugstöðvarsvæðið komust menn í bílaleigumiðjuna sem var sko alls ekkert í miðjunni!
Eftir að hafa hlaðið farangri í bílinn var haldið sem leið lá austur og svo norður á bóginn í átt að Eystrasaltinu, með smá matarstoppi, en áfangastaður var Kap Arkona á Rügen. En þar stendur til að keppa í tveimur F3F mótum, Opna þýska mótinu 6. og 7. október og svo heimsmeistaramótinu sem fer fram daganna 8. til 13. október.
Bíltúrinn var um 400 km langur og tíðindalítill en ferjuferðin reyndi mjög á menn, næstum því tvær… heilar mínútur! En menn létu sig hafa það fyrir €2,3 á haus.
Það var því komið myrkur þegar við reyndum í hlað á hótelinu um átta leytið svo lítið sást af nærumhverfinu. Eftir að hafa komið öllum farangrinum upp á herbergi þá var slappað af í nokkrar mínútur áður haldið var með módelin í skráningu og úttekt. Þar tóku starfsmenn sig til og límdu, krotuðu og stimpluðu módelin til að gera allt löglegt en jafnframt fengum við keppnissmekkina og nokkra minjagripi.
Að því loknu var rölt til baka á hótelið og næstu skref plönuð áður en haldið var í bólið.