Dagurinn byrjaði eins og best verður á kosið með roki og rigningu! Reyndar stytti upp fljótlega eftir 7, eins og spáð hafði verið, svo eftir morgunmatinn drifum við okkur af stað út í brekku, eða réttara sagt bakka, sem var Kreptitz (Windtunnel).
Þegar þangað var komið drifum við upp grunnbúðir en þar sem búið var að færa startið fram um 30 sæti þá var Guðjón níundi í loftið en Sverrir 37 og Erlingur beint á eftir. Vindurinn byrjaði í 16 m/s með hviðum upp í 18 m/s en fljótlega datt vindurinn niður í 12-13 m/s og með hviður upp í 15 m/s.
Flugið hjá Guðjóni gekk vel en í aðflugi til lendingar missti hann samband við módelið og það kom frekar harkalega niður og flýgur sennilega ekki meira á þessu ári. Sverrir fór næstur í loftið og gekk það vel en í næsta flugi fór Erlingur í loftið en vélin ofreis og endaði í sjónum fljótlega eftir ræsingu og mun Ægir vera að fljúga henni næstu misserin.
Þeir félagar voru þó ekki einir í þessum pakka í dag en alla vega fimm aðrar vélar brotlentu, ýmist í fjöru, bökkum, trjám eða sjó. Einn Ástralinn flaug svo niður vindmælinn og eru Þjóðverjarnir búnir að panta 2 aðra með hraðsendingu. Sverrir endaði í 58. sæti, Guðjón í 62. sæti og Erlingur í 64 sæti. Nánari úrslit má sjá hér > http://www.f3xvault.com/?action=event&function=event_view&event_id=1186
Sverrir fór á liðsstjórafund vegna heimsmeistaramótsins seinni partinn, þar var farið yfir framkvæmd mótsins og spurningar um hin ýmsu atriði frá liðsstjórunum. Svo sem ekkert þar sem ekki kom fram í Bulletin 2 nema þá helst ítarlegri útskýringar á umhverfisverndarhlutanum.
Klukkan 20 var mótið svo sett og var setningin í beinni útsendingu en þar var spilað stutt kynningarvídeó fyrir hverja þátttökuþjóð. Skipuleggjendur mótsins höfðu beðið þjóðirnar um 90 sekúnda langt kynningarmyndband en þeir bjuggu svo til vídeó fyrir þær þjóðir sem ekki sendu inn klippu. Kynningarmyndbandið okkar er að finna hér að neðan.
Á morgun er spáð SV 4-6 m/s svo það stefnir allt í að við verðum á Goorer Berg á morgun. Mánudag til föstudag verður flogið frá 9-18 alla daga nema laugardag en þá verður flogið 9-12.