Heimsmeistaramótið í F3F – Dagur 1

Það voru árrisulir flugmódelmenn sem skelltu í sig morgunmat um 7 í morgun en þar sem Guðjón var sjöundi út þá drifum við okkur út í brekku fljótlega eftir það. Flugið hjá zero-pilot gekk vel svo fyrsta umferð var ræst út rétt rúmlega níu í morgun.

Vindur var í kringum 9 m/s í morgun en var að rokka þetta 7 til 8 m/s á Goorer Berg í dag. Eins og glöggir áhorfendur að streyminu hafa kannski tekið eftir þá hefur vantað vindupplýsingar í dag en einn Ástralinn flaug á staurinn í gær og skemmdist vindmælirinn í afganginum. Tveir nýir vindmælar eru á leiðinni og ættu að skila sér á morgun.

Flugið hjá okkar mönnum gekk bara vel í dag og var klárað að fljúga 4 umferðir. Við kláruðum okkar flug í fyrri hluta fjórðu umferðar og drifum okkur svo í burtu að redda blýi og öðru tilfallandi til að geta komið Erlingi aftur í loftið sem allra fyrst en hann sat hjá í dag. Í því sem við vorum að pakka í bílinn heyrðist þvílíkur hávaði fyrir ofan okkur og hafði keppandi frá Taívan þá flogið beint á tré við bílastæðið. Slökkviliðið í Rügen kom honum til bjargar síðar um kvöldið.

Sem stendur er Sverrir í 53. sæti, Guðjón í 54. sæti og Erlingur í 63. sæti. Eins og spáin er þá verðum við eflaust enn á Goorer Berg á morgun. Guðjón fer út 18., Erlingur 28. og Sverrir 60.