Loksins veður fyrir hang

Veðurspá síðustu daga benti til þess að viðrað gæti til hangflugs í dag og viti menn það stóðst nokkurn veginn. Nokkur haglél sáust í upphafi dags og svo nokkrir dropar í lokin. Skytturnar þrjár mættu út á Hamranesið um kl. 11 og eftir smá vindtékk (kringum 8 m/s) var ekkert að vanbúnaði að henda vélunum fram af.

Fyrstu hangflugin hjá Sverri og Guðjóni eftir heimsmeistaramótið í haust og gott að sjá að menn hafa litlu gleymt og mikið svakalega var gaman hjá þeim að komast aftur í loftið!

Fyrstu flugin fóru fram fyrir sólarupprás og eins og sjá má á nokkrum myndum var birtan ekkert alltof leiðinleg þegar sólin fór að gægjast yfir Brennisteinsfjöllin einhverju síðar. Eins og veðurhorfur næstu daga eru í augnablikinu bendir allt til þess að þetta hafi verið síðasta hangflug ársins svo okkur langar að nota tækifærið og þakka mönnum samfylgdina á árinu og vonandi verður nóg af „hangsi“ á komandi ári!