
Áfram heldur Noregstúrinn að gefa vel af sér, dagurinn byrjaði rólega svo fyrstu mínútunum var eytt í kastæfingar yfir grasinu á lendingarsvæðinu en það varði ekki lengi þar sem vindurinn datt fljótlega í gang. Fyrst um sinn í kringum 5 m/s en fljótlega var hann kominn upp í 8+ m/s og svoleiðis var það út daginn þannig að áfram var haldið í stífum æfingum enda styttist óðum í Norway Open en til stendur að hafa það í beinni á Facebook!
Erlingur hefur setið við öll kvöld að gera flugklárt og í dag var loksins komið að stóru stundinni, frumflug á nýju vélinni, Impulse-2 F3F frá Aer-O-Tec. Skemmst er frá að segja að það gekk eins og í sögu og var greinilegt að Erling leiddist ekki að fljúga nýju vélinni sinni.
Óskum Erlingi kærlega til hamingju með nýja gripinn, megi þeir eiga langan og sigursælan mótaferil í vændum!














