Sverrir og Guðjón voru mættir út á Hamranes um tíuleytið og eftir að hafa haldið upp brekkuna með vélarnar sínar þá var augljóst að vindur væri á svæðinu og mótið yrði haldið í dag. Þá var ekkert annað í stöðunni en að rölta aftur niður í bíl og ná í hliðin og tímatökubúnaðinn. Aðrir keppendur tóku svo að týnast inn og var að verða fullmannað um hálf tólf leytið. Þá var raðað upp í hópmyndatöku, þó augljóslega hefði mátt stilla nokkrum vinstri sinnuðum aðeins betur upp, en því miður vantar Sigga á myndina en hann kom örlítið síðar á svæðið.
Allir sem vildu fengu að taka flug til að ná úr sér hrollinum og var ákveðið að fyrsta flug færi í loftið um hálf eitt. Ekki var um stöðugan vind að ræða í dag heldur var uppstreymið að blása í gegn og var það dálítið lottó hvort menn fengu góðan vind eða væru á faðirvorinu. Nokkur flug fóru yfir 100 sekúndurnar en hraðasta flug dagsins var 59.90 sekúndur sem Sverrir flaug í síðustu umferð, en það var einnig síðasta flug fimmtu umferðar og lokaði þar með mótinu.
Mótið gekk almennt mjög vel fyrir sig og lítið um óhöpp, Siggi varð þó að sitja hjá eftir að vængfesting gaf sig í frumfluginu á nýju CF vélinni hans en í staðinn mannaði hann vaktina í A hliðinu í allan dag og kunnum við honum bestu þakkir fyrir það. Böðvar var svo úr leik eftir að stélið losnaði hjá honum fyrir fyrstu umferðina og hann rak vænginn í brekkubrúnina í fyrstu umferð þar sem vélin lét ekki nógu vel að stjórn hjá honum.
En rásröðin var sem hér segir:
- Guðjón
- Erlingur
- Böðvar
- Siggi
- Steinþór
- Rafn
- Sverrir
Í þriðju umferð lendir Guðjón í því að vindurinn fer niður fyrir 3 m/s á í meira en 30 sekúndur og átti hann því rétt á endurflugi sem hann nýtti sér og flaug þá á 69.54 sekúndum og vann umferðina en til gamans má nefna að hann kláraði 10 leggi á meðan hann var að reyna að koma sér í smá hæð í fyrsta fluginu og flaug þá á 153,16 sekúndum og hægasti leggurinn var 23,83 sekúndur! Þar sem munurinn á tímanum hjá Guðjóni og Sverri í fjórðu umferð var meiri heldur en samanlagður munurinn í tvö og fimm þá vann Guðjón mótið þrátt fyrir að Sverrir hafi unnið 3 umferðir en Guðjón 2.
En svona er þetta nú stundum í sportinu, það er oft ekki nema eitt flug sem skilur á milli sæta en munurinn jafnast oftast út eftir því sem næst að fljúga fleiri umferðir.
Óskum við því Guðjóni kærlega til hamingju með sigurinn!
Nýr tímatökubúnaður var líka að koma vel út, eina sem klikkaði var að netsambandið var í einhverju pikklesi svo ekki náðist að setja mótið upp í kerfinu en það mun ekki koma fyrir næst, þá verða bæði axlabönd og belti á sínum stað.