Humlum

Þurr dagur eftir úrhelli gærdagsins, og síðasti dagur fyrir mót, svo nú skyldi haldið út í brekku að taka nokkrar æfingar. Miðað við vindspá dagsins þá var brekkan í Humlum málið en hún er í rúmlega klukkutíma fjarlægð frá Hanstholm. Þegar við mættum á staðinn var augljóst að fleiri módelmenn væru mættir að nýta sér aðstæður og kom í ljós að þar voru á ferð félagar okkar frá Þýskalandi sem höfðu tekið stopp á leið sinni upp til Hanstholm til æfinga.

Eftir að hafa litið á aðstæður og mælt 11+ m/s þá var haldið aftur að bílnum að ná í græjurnar en þá vildi ekki betur til en svo að læsingin á skothleranum klikkaði! Nú voru góð ráð dýr en Elli setti á sig vinnugleraugun og tók bílinn allan í sundur (sagan hljómar alla vega betur svoleiðis) til að komast að læsingunni og eftir smá yfirlegu þá var bíllinn orðinn betri en nýr. Þá var okkur ekkert að vanbúnaði að halda út á brekku með módelin og taka til við flugæfingar.

Við biðum í smá stundu meðan Þjóðverjarnir kláruðu sig af en í millitíðinni kom Leszek Respect framleiðandi á svæðið svo þar urðu fagnaðarfundir. En nú fór ekki á milli mála að búið var að bæta í vindinn svo upp fóru vindmælarnir og var að mælast vel upp fyrir 20+ m/s og meira í hviðunum svo það var ekkert annað í stöðunni en að fulllesta vélarnar og henda þeim í loftið.

Skemmst er frá því að segja að það var svakaleg keyrsla og mikið fjör!

Bjartur og fagur dagur
Nokkrir flugmódelmenn frá Þýskalandi voru mættir á svæðið
Fagnaðarfundir
Elli á fullu að redda hlutunum
Hluti af brekkunni
Leszek, eða Jónas eins og strákarnir kölluðu hann, mættur í fjörið
Þarna var komið í 20+ m/s svo jafnvel þungavigtarmenn þurftu að beita sér vel upp í vindinn!