Sloping Denmark þriðji dagur

Dagurinn rann upp bjartur og fagur, vöknuðum reyndar aðeins fyrr en við áttum von á við gleðilætin í nágrönnum okkar frá Noregi sem eru hérna í sumarfríi en þeir voru komnir út í brekku fyrir sólarupprás að fljúga. Eftir staðgóðan morgunmat þá var haldið af stað áleiðis út í brekku en þegar þangað var komið tók við smá torfæruakstur þar sem eitthvað hafði misfarist að opna fyrir okkur veginn sem nota átti til að komast út að brekkunni. Menn voru á misháum bílum en með smá samvinnu og hjálpsemi þá tókst að koma öllum keppendum yfir torfærurnar.

Aðstæður voru ágætar í dag, 5-10 m/s yfir daginn en ekki mikið rokkandi á milli flugmanna. Í fyrstu tveim umferðum dagsins var hraðasti tíminn í kringum 50 sekúndurnar en í þeirri þriðju var hann nær 45 sekúndum og í fjórðu og síðustu umferð dagsins var hann rétt tæpar 44 sekúndur.

Að lokum fóru leikar svo að Thorsten Folkers varð í 1. sæti, Erik Schufmann í 2. sæti og Peter Aanen í 3. sæti. Keppnin var nokkuð jöfn sem sést á því að á milli flestra sæta var það innan við tugur stiga sem skyldi þau að og þar sem munurinn var minnstur munaði .02 stigum á milli sæta sem er ekki mikið þegar 9000 stig eru í pottinum. 😉

Ég endaði í 36. sæti, Guðjón í 37. sæti og Erlingur í 39. sæti og heilmikið komið inn í reynslubankann. Við urðum svo þriðju í liðakeppninni en þar sem hún var ekki full skipuð þá er nú ekki mikið að marka það.

Allt í allt náðist að fljúga 10 umferðir sem verður bara að teljast þokkalegt miðað við hvernig þetta leit út eftir fyrsta daginn þar sem allt var á floti.

Strákarnir sáttir eftir gott mót