Þorlákshöfn heimsótt

Sverrir og Elli skelltu sér í smá hangtúr í dag. Þeir byrjuðu í Kömbunum strax eftir hádegi en þrátt fyrir langa bið þá komst ekki mikil hreyfing á vindinn þannig að um miðjan dag fórum þeir að hugsa sér til hreyfings.

Þrátt fyrir að vindurinn væri ekki að blása þangað á því augnabliki var ákveðið að skella sér til Þorlákshafnar og skoða aðstæður í sandöldunum þar en það var búið að standa til í smá tíma.

Þegar þangað var komið reyndist vindurinn bæði vera búinn að snúa sér og herða á sér þannig að það var ekki eftir neinu að bíða og vélunum var hent fram af í hangið. Fínustu aðstæður og ekkert búið að trufla vindinn síðan hann lagaði af stað frá Suðurskautslandinu.

Skemmst er frá því að segja að vel var tekið á því restina af síðdeginu og var svo sleginn botn í góðan dag með hamborgarbombu hjá Hendur í höfn.